top of page

FJÖLSKYLDUMEÐFERÐ

Hér á árum áður var fjölskyldueiningin frekar einföld. Yfirleitt var um að ræða karl og konu ásamt barni eða börnum. Fjölskylduformið hefur svo óðum verið að breytast og er nú orðið mjög fjölbreytt. Nú innihalda fjölskyldurnar ýmist gagnkynhneigt eða samkynhneigt par og þeirra börn, hvort sem parið á börnin saman eða með öðrum mökum, eða einstætt foreldri og börn.

 

Fjölskyldumeðferð er meðferðarform þar sem tekist er á við samskipti, tilfinningar og hegðun hjá fjölskyldum. Fjölskyldumeðferðarformið er ólíkt öðrum meðferðarformum að því leiti að þar er algengast að fjölskyldan mæti saman í viðtalstímana, eða hluti úr fjölskyldunni. Í fjölskyldumeðferð er hagur allra fjölskyldumeðlima hafður að leiðarljósi því Þegar einn innan fjölskyldu glímir við vanda hefur það áhrif á alla innan fjölskyldunnar með einum eða öðrum hætti.

 

Fjölskyldumeðferð sinnir því einstaklingum, hjónum, pörum og fjölskyldum í hvaða formi sem er. Þar með talið stjúpfjölskyldum, fjölskyldum með börn í fóstri og stórfjölskyldunni þar sem afa og ömmur eða frænkur og frændur eiga í hlut.

Fjölskyldumeðferð er gagnreynt og árangursríkt meðferðarúrræði (Evidence-based practice) þegar t.d. tekist er á við: líkamleg og andleg veikindi, áföll af ýmsum toga, sorgarferli, barnauppeldi, ágreining af ýmsu tagi, kynlífsvandamál og breytt fjölskyldumynstur í kjölfar skilnaðar.

 

Í fyrsta viðtali er tekin afstaða til þess hvort fjölskyldan þurfi lengri meðferð eða einungis ráðgjöf. Þeir aðilar sem leita aðstoðar eru að sjálfsögðu með í því að vega og meta hvað fjölskyldan þurfi aðstoð með. Fyrsti viðtalstíminn fer því í að fá upplýsingar og ólík sjónarhorn fjölskyldunnar á vandkvæði. Lögð er áhersla á að raddir allra, sem mæta til viðtalsins, heyrist og síðan er meðferðin tekin út frá þessum sjónarhornum.

c5fd7a139e1a5c3028be211b83e94797--family

Fjölskylda er hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila saman tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Meðlimirnir eru oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum eða einstaklingur, ásamt barni eða börnum (þeirra). Þau eru skuldbundin hvert öðru í siðferðilegri, gagnkvæmri hollustu.

bottom of page