top of page

Fósturbörn og fósturforeldrar

Upplýsingar frá Barnaverndarstofu sem sér um eftirlitshlutverk og ráðningu fósturforeldra.

Börn sem vantar fósturheimili - er fjölskyldan þín tilbúin til að taka við barni?

Börn í fóstri eru alveg eins og önnur börn. Mismunandi. Sameiginlegt með þeim öllum er þörfin fyrir að hinir fullorðnu geti veitt þeim öryggi, umhyggju og ást. Fyrir börnin fjallar þetta oft um það sem flestir taka sem sjálfsagðan hlut. Að einhver hjálpi þeim með heimalærdóminn, fylgi þeim á íþróttaæfingu og hvetur þau frá hliðarlínunni. Einhver sem segir "góða nótt" og sér til þess að þú sefur rótt. Allar nætur. Einhver sem er tilbúin til að hlusta, tilbúin til að spyrja og tilbúin til að vera til staðar á erfiðum tímum og góðum stundum. Stundum þurfa börn í fóstri að vera eina barnið á heimilinu en stundum er einmitt betra að vera innan um fleiri börn. Sum börn sem þurfa að komast í fóstur eru lítil, 2, 4 eða 6 ára en sum eru eldri 12, 14 eða 16 ára. Það er kanski "auðveldara" að taka að sér lítið barn í fóstur en það er mikil þörf á því að fá fleiri fósturheimili fyrir eldri börnin.  

Hvernig verður maður fósturheimili?

Þeir sem óska eftir að taka barn í fóstur skulu í fyrsta lagi hafa samband við starfsfólk Barnaverndarstofu og ræða málin.  Svo geta áhugasamir sent umsókn til Barnaverndarstofu.

Hverjir geta orðið fósturforeldrar?

Mismunandi börn þurfa mismunandi fósturheimili, þess vegna geta mismunandi fjölskyldur og einstaklingar sótt um, giftir, ógiftir, sambýlisfólk, einstæðir, gagnkynhneigðir og samkynhneigðir svo við nefnum nokkra. Allir þurfa bæði að fá almennt samþykki til að verða fósturforeldri og einnig að verða samþykktir sérstaklega fyrri viðkomandi fósturbarn þegar að því kemur. Fósturforeldrar þurfa að geta veitt barni trygga umönnun og öryggi og mætt þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfa að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroska barns. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi en hjón eða sambúðarfólk skulu sækja um leyfi saman. Þeim sem brotið hafa gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot er óheimilt að taka barn í fóstur.

Hvernig er að vera fósturforeldri?

Sem fósturforeldri ertu þátttakandi í því  að gefa barni þær öruggu aðstæður sem börn þarfnast. Börn í fóstri eru mismunandi, bæði í aldri og persónuleika og þurfa mismunandi utanumhald. Mörg þeirra eiga það sameiginlegt að hafa upplifað erfiða hluti. Að vera fósturforeldri getur verið krefjandi en getur líka verið gríðarlega gefandi. Það er mikil breyting bæði fyrir barnið og fjölskylduna að byrja að kynnast hvert öðru og takast saman á við hversdagsleikann. Stundum er þörf á því að amk annað fósturforeldrið taki sér frí frá vinnu þegar fósturbarnið flytur inn á heimilið. En oftast gengur það svo vel að báðir vinni úti.  

Ég held ekki að við höfum verið sérstaklega fullkomin. En það þarf að vera pláss fyrir dálítið meira en það venjulega. Maður verður að vera þolinmóður við börn í fóstri. Því það fer ekki allt eins og það á að fara og það er ekki alltaf augljóst hvað er að, við erum oft óörugg og hrædd og kunnum ekki að segja frá því. Stundum treystum við ekki þessum fullorðnu því við höfum svo oft verið svikin.  

Eru til mismunandi útgáfur af fóstri?

Tímabundið fóstur = vistunin getur verið í allt að eitt ár en má framlengja í tvö ár. Þegar börn eru í tímabundnu fóstri er oftast stefnt að því að þau fari aftur heim til foreldra að fóstri loknu. Umgengni við kynforeldra er mikil og er oftast aukin þegar nær dregur fósturlokum. 


Varanlegt fóstur = fóstrinu er ætlað að vara fram að því að barnið verður 18 ára og er þá ekki ætlunin að barnið fari aftur heim til kynforeldra. Umgengni við foreldra er mikið minni en í tímabundnu fóstri.  


Styrkt fóstur = þá þarf barnið sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimilnu í takmarkaðan tíma, að hámarki tvö ár. Gjarnan er um að ræða börn sem eiga við mikinn tilfinninga- og hegðunarvanda að etja. Gert er ráð fyrir því að annað fósturforeldra sé í "fullu starfi" við umönnun barnsins.

 

Hverjar eru greiðslur, skyldur og réttindi fósturforeldra?

Framfærslueyrir = til að standa straum af öllum almennum kostnaði sem felst í því að hafa barn, svo sem  aðstöðu á heimili, mat, endurnýjun á fatnaði, almennri læknisþjónustu, daglegum ferðalögum, mötuneytiskostnaði í skóla, venjubundnum útbúnaði í skóla og almennum tómstundum. Framfærslueyrir vegna barns í fóstri skal nema þreföldum barnalífeyri (meðlög).

Fósturlaun = greiðast vegna barna í tímabundnu og styrktu fóstri og einungis í undantekningartilvikum vegna barna í varanlegu fóstri. Lágmark fósturlauna tekur mið af aldri barns á hverjum tíma og skal ekki nema lægri fjárhæð en: Þreföldum barnalífeyri vegna barna 0-6 ára, fjórföldum vegna barna 6-12 ára og fimmföldum vegna barna 12 ára og eldri. Fósturlaun skulu að jafnaði ekki nema meira en tíföldum barnalífeyri.

Annar fyrirsjáanlegur kostnaður = kostnaður sem fyrirsjáanlegt er að verði um að ræða á meðan fóstur varir, svo sem greiðslu vasapeninga, ferðakostnað vegna umgengni barns við nákomna, kostnað við leikskóla eða aðra gæslu, sérstakan námskostnað eða mikinn kostnað vegna tómstunda, kostnað vegna ferminga, útgjöld vegna meiri háttar tannlækninga eða umtalsverðrar heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna alvarlegra eða langvarandi sjúkdóma, og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.

Ófyrirsjánlegur kostnaður = allur kostnaður vegna fóstursins sem ekki var fyrirsjáanlegt að yrði um að ræða þegar fóstursamningur var gerður, svo sem sérstakan námskostnað eða verulegan kostnað vegna tómstunda eða tannlækninga, eða umtalsverða heilbrigðisþjónustu og umtalsverðan ferðakostnað í tengslum við nauðsynlega þjónustu sem barn þarf að sækja, svo sem heilbrigðisþjónustu.

Greiðslu í styrktu fóstri: Ef Barnaverndarstofa samþykkir að barn fari í styrkt fóstur þá greiða barnaverndarnefnd sem ráðstafar barninu og Barnaverndarstofa að jafnaði framfærslueyri og fósturlaun sem samsvara allt að átjánföldum barnalífeyri.

Viltu_gerast_fosturforeldri.png

Dæmi frá BVS um börn sem þurfa að komast í fóstur og eru þau byggð á raunverulegum atburðum þótt nöfnum og persónugreinanlegum atriðum hefur verið breytt.


Ella 10 ára 
Hún er barn sem þarfnast tilfinninganæmra fullorðinna sem skynja og skilja hverjar eru þarfir hennar og styðja hana til að umgangast vini og til að vera í skólanum. 

 

Ella segir: Ég er stúlka sem er mjög einmanna akkúrat núna. Ég bý hjá fjölskyldu vinkonu minnar, en bara tímabundið. Ég get ekki búið heima hjá mér og verð að flytja á fósturheimili. Kanski get ég þá fengið súkkulaði jóladagatal og kanski á fjölskyldan hund eða kött það væri gaman. Ég vona að fósturfjölskyldan sem ég flyt til leyfi mér að hitta foreldra mína, því mér þykir svo vænt um þau þó að þau hafi ekki getað séð um mig almennilega"     

Systkini - 14 og 16 ára 
Aron er 14 ára og Anna er 16 ára. Þau þurfa að komast á fósturheimili sem getur veitt mikla þjónustu. Hefur þú möguleika á að hjálpa þeim báðum? Aron og Anna eru mjög félagslynd og flottir krakkar. Þau eru dugleg í skóla, upptekin af því að eiga vini og elska að eiga fjölskyldu og dýr. Þau hafa upplifað erfiða atburði, áföll og mikla höfnun í lífinu. Það er líklega ekki heppilegt að það séu yngri börn í fjölskyldunni og þetta gæti tekið mikinn tíma fósturforeldranna a.m.k. til að byrja með.  

 

Jóakim 7 ára 
Jóakim er duglegur í skólanum og elskar að æfa og spila fótbolta. Hann er hrifinn af minni dýrum eins og naggrísum og hömstrum og á auðvelt með að sýna þeim ást og umhyggju. Hann er með mikla orku og eru hendur og fætur sjaldan í ró. Jóakim getur sýnt mjög erfiða hegðun og verið þver og ákveðinn og staðið fast á sínu. Hann er oft reiður og pirraður og getur reynt mjög á nánasta umhverfi. 

Hvernig fósturforeldra þarfnast Jóakim? Hann þafnast fósturforeldra sem geta umborið ýmislegt, verið róleg en ákveðin, þolinmóð og haft skilning á því að þessi erfiða hegðun hans er yfirleitt útrás fyrir vanlíðan. Það er ekki heppilegt að það séu börn fyrir á heimilinu eða a.m.k. ekki yngri eða jafnaldra börn. A.m.k. annað fósturforeldrið gæti þurft að vera heima við frá vinnu í nokkuð langan tíma. mögulega eitt ár.   

bottom of page