top of page
SÁLFRÆÐIMEÐFERÐ

FYRSTA VIÐTAL

Eðlilegt er að upplifa óöryggi eða kvíða áður en komið er í fyrsta viðtal til sálfræðings. Fyrsta viðtal snýst að miklu leiti um upplýsingasöfnun ásamt því að skjólstæðingur kynnist meðferðaraðila. Engir tveir eru eins og ekkert fyrsta viðtal er nákvæmlega eins. Almennt séð er spurt um ástæðu komu, forsögu og núverandi aðstæður skjólstæðings. Óraunhæft er að ætla að allar upplýsingar komi fram í fyrsta viðtali. Til þess að nýta viðtölin á sem bestan hátt getur verið gott að mæta með punkta í viðtöl eða senda með tölvupósti. Sumir kjósa að útlista vandkvæðum sjálfir á meðan aðrir vilja frekar að meðferðaraðili leiði viðtalið með viðeigandi spurningum. Enn aðrir kjósa báða valkostina.

VIÐFANGSEFNI

Mörk gilda í samskiptum og hegðun í viðtölum, rétt eins og annars staðar. Skjólstæðingur hefur því stjórn á hverju hann deilir með sálfræðingi og hvað hann er tilbúinn til þess að vinna með. Engin kvöð er um að skjólstæðingur ræði ,,allt" í fyrsta viðtalstímanum eða að byrjað sé að vinna með erfiðustu reynsluna. Stundum kjósa skjólstæðingar að vinna með nýlega atburði sem trufla núverandi aðstæður frekar en að opna sig um erfiða atburði úr æsku. Hins vegar er gott fyrir meðferðaraðilann að vita af erfiðleikum þótt að skjólstæðingur sé ekki tilbúinn að ræða þá frekar á þeim tíma.

MATSLISTAR

Í fyrsta viðtali er líklegt að sálfræðingur biðji skjólstæðing um að fylla út spurningalista varðandi hegðun og líðan. Sálfræðingar notast við viðurkennda sálfræðimatstæki til þess að meta stöðuna eins og hún er á hverjum tíma. Hvað börn varðar, þá geta foreldrar nýtt tímann til þess að fylla listana út meðan að sálfræðingur ræðir við barnið.

BÖRN OG UNGLINGAR

Þegar börn eiga í hlut er betra að uppalendur komi einir í fyrsta viðtal og fari yfir forsögu og eðli vanda. Á þetta við þegar börn eru yngri en 11 ára eða þegar vandkvæði eru flókin. Börn undir sex ára aldri geta átt erfitt með að bíða meðan að foreldri veitir sálfræðingi nauðsynlegar upplýsingar. Þegar rætt er við barnið er lögð áhersla á að láta því líða vel og að krefjast ekki of mikið af þeim. Fyrsta viðtal er því einungis ætlað að mynda tengsl og kynnast hvort öðru. Sálfræðingur spyr gjarnan auðveldar spurningar um fjölskyldu, vini og skóla ásamt því að kynnast áhugamálum barnsins. Einnig útskýrir hann starf sálfræðings og ræðir trúnaðarskyldu sálfræðinga. Með yngri börn er stundum tekin fram leikföng eða skemmtileg spil til að láta þeim líða vel.

 

Hjá eldri börnum og unglinum er viðtalinu ýmist skipt upp með því að ræða saman við uppalendur og ungling, loks í sitthvoru lagi. Í sumum tilfellum kjósa aðilar að ræða saman allan viðtalstímann.

FJÖLDI VIÐTALA

Erfitt getur verið að ákveða fyrirfram hversu mörg viðtölin og er þessu misjafnt háttað eftir eðlil vanda og aðstæðum. Meðferðarvinna snýst þó alltaf um að unnið sé með vandkvæði á sem stystum tíma og hvert viðtal nýtt á sem bestan hátt. Sálfræðiviðtöl eru gjarnan vikulega til að byrja með en algengt er þau eigi sér stað tvisvar í mánuði. Þegar tilsettum ágrangri er náð er tími milli viðtala lengdur þar til skjólstæðingur hættir í viðtalsmeðferð. Óhætt er að leita aftur til sálfræðings síðar meir verði þörf fyrir.

TVÖ HEIMILI

Samþykki foreldris, sem hefur sama lögheimili og barnið, þarf að liggja fyrir til þess sálfræðingur megi ræða við barnið. Liggi ekki samþykki fyrir er hægt að veita foreldrum ráðgjöf sem snýr að barninu. 

Uppalendur hafa val um að hitta sálfræðing saman eða í sitt hvorum viðtalstímanum. Mikilvægast er að öllum aðilum líði vel og finnist þeir geta tjáð sig og komið því til skila sem þörf er á.

FORFÖLL

Það er mikilvægt að tilkynnt sé um öll forföll með góðum fyrirvara. Sé tími afbókaður innan sólahrings telst tíminnn nýttur. Hægt er að afbóka viðtalstíma með tölvupósti sentia@sentia.is eða færa viðtalstímann í Noona.

KOSTNAÐUR

Viðtalstíminn er 50 mínútur og kostar 24.000kr. Innifalið í verðinu eru styttri símtöl og samskipti við skóla barnsins, tölvupóstsamskipti við foreldra og undirbúningur fyrir hvert viðtal. Reikningar berast rafrænt með tölvupósti og innheimtur í heimabanka. Hægt er að sækja um endurgreiðslu hjá stéttarfélögum. Hægt er að kanna hjá félagsþjónustum og barnaverndum um þátttöku í kostnaði vegna sálfræðiviðtala.​

 

TRÚNAÐUR

Samkvæmt lögum og siðareglum sálfræðinga þá eru sálfræðingar bundin trúnaði varðandi þær upplýsingar sem skjólstæðingar veita þeim. Það þýðir meðal annars að við getum ekki veitt öðrum aðila upplýsingar nema með skriflegu leyfi þínu. Þegar börn sækja sálfræðiviðtöl lofum við þeim einnig vissum trúnaði. Foreldrar eiga þó rétt á að fá upplýsingar um meðferðarvinnuna. Við upplýsum foreldra yngri barna alltaf um það hvaða vanda er verið að vinna með, hvaða færni er verið að vinna með hverju sinni og helstu hindranir í lífi barnsins. Börn yfir 16 ára aldri eiga rétt á fullum trúnaði líkt og fullorðnir einstaklingar.

Undantekningar trúnaðarákvæði sálfræðinga eru:

  1. Þegar velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, þá ber að tilkynna það til yfirvalda.

  2. Þegar grunur leikur á að þú eða annar aðili sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða, þá ber mér að hafa samband við einhvern tengdan viðkomandi, viðeigandi stofnun eða yfirvöld.
     

Trúnaður gildir einnig um aðra skjólstæðinga sem þú mætir á biðstofunni og er þetta gagnkvæmt hvað aðra varðar.

Upplýsingar um réttindi sjúklinga eru á þessari vefslóð:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html

Psychologist Session
bottom of page